Thursday, October 30, 2014

Viltu vinna bíómiða á Grafir & Bein ?


Íslenska hryllingsmyndin Grafir & Bein verður frumsýnd á morgun (föstudaginn, 31. október). Vel við hæfi að frumsýna kvikmynd sem mun hræða líftóruna úr fólki á sjálfan Halloween. Grafir og Bein er dramatískur sálfræðitryllir sem mun fá hörðustu menn landsins til að skjálfa á beinunum í bíóhúsum landsins næstu vikur og mánuði. Anton Sigurðsson sá mikli meistari og góðkunningi minn, er handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar. 

Anton er aðeins 27 ára gamall og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd, hann er jafnframt einn sá yngsti sem hefur leikstýrt kvikmynd í fullri lengd. Hann hefur áður leikstýrt stuttmyndum og gerði hann m.a. samnefnda stuttmynd sem byggði á sama efni. Ferlið þróaðist hratt eftir að stuttmyndin var gerð og var þegar í stað stefnt að kvikmynd í fullri lengd. Anton ólst upp við kvikmyndir og hafði hann alltaf mikinn áhuga á þeim. Hann hefur alltaf verið lipur sögumaður. Þegar Anton varð unglingur þróaðist áhuginn yfir í þráhyggju og svo úr þráhyggju yfir í ástríðu.
Loksins fáum við að sjá íslenska hryllingsmynd sem ekkert nema eintóm söguleg snilld! 

Grafir og Bein fjallar um hjón sem missa dóttur sína og flytja í afskekkt hús til þess að annast frænku sína eftir að foreldrar hennar deyja á furðulegan hátt. Þegar komið er í húsið fara undarlegir hlutir að gerast. Svefnlausar nætur, dularfullt fólk sem heimsækir þau og ótrúlegir hlutir sem þau upplifa í veru sinni í húsinu sem er reimt.Ég mæli eindregið með því að horfa á trailerinn hér að ofan en hann fær sannarlega hárin til að rísa og gefur okkur smjörþefinn af því sem bíður okkar þegar við mætum í bíó. 
Ég hvet ykkur til að skella ykkur í bíó á þessa mynd því eins og við vitum öll eru svona kvikmyndir miklu meira upplifelsi í bíósal heldur en heima í stofu. Grafir & Bein verður sýnd í Laugarásbíó, Smárabíó, Háskólabíó og Borgarbíó Akureyri.

Ég er svo heppin að vera á leiðinni á sérstaka forsýningu Grafir & Bein núna í kvöld í Smárabíó. Ég ætla að stelast frá rúminu mínu sem ég hef eytt öllum stundum með síðastliðna viku sökum hálskirtlatöku. Ég iða um af spenningi og hlakka mikið til að deila með ykkur upplifun minni á myndinni.

EN í tilefni af komu Grafir & Bein í bíóhús langar mig að GEFA tveimur heppnum einstaklingum bíómiða fyrir tvo á myndina. Það er til mikils að vinna svo ég hvet ykkur eindregið til að taka þátt. Passið upp á að fylgja leiðbeiningum hér fyrir neðan rétt eftir og þá eruð þið komin/n í pottinn:

  1. Smella á LIKE við Facebook síðu fanneyingvars.com HÉR.
  2. Deila þessari færslu með vinum á Facebook.
  3. Kvitta undir þessa færslu nafn ykkar og netfang.
Ég dreg út um helgina. xxx


Starring: Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Elva María Birgisdóttir, Magnús Jónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sveinn Geirsson, Þorsteinn Gunnarsson
Genre: Dramatískur sálfræðitryllir
Directed by: Anton Sigurðsson

Til hamingju Toni og allir Íslendingar, sjáumst í bíó!! Góða skemmtun x

Fanney

Tuesday, October 28, 2014

Lífið

Í ljósi neikvæðu athyglinnar í bloggheiminum undanfarið langar mig að koma frá mér nokkrum orðum sem hafa nagað mig lengi. Í hvert skipti sem ég hætti og byrja aftur með þetta blogg er það oftast vegna neikvæðinnar gagnrýni þar sem ég hef ekki verið með nógu stórt bein í nefinu til að taka, sorglegt en satt. Með þátttöku í keppnum á borð við Ungfrú Ísland er maður auðvitað að koma sér á framfæri og í leiðinni að gefa fólki tækifæri á því að tala um sig - og þarf maður þar af leiðandi að vera tilbúin/n að taka þeirri gagnrýni. Þetta var eitt af því sem ég hugsaði ekkert út í áður en ég ákvað að slá til og taka þátt í þessari keppni árið 2010. Ég hafði stuttan umhugsunarfrest en ákvað að lokum að slá til. Þegar á heildina er litið sé ég alls ekki eftir því þar sem reynslubankinn minn er fullur af dásamlegum upplifelsum og minningum sem ég hefði annars aldrei fengið. Fimm vikur á ferðalagi um Kína og Mongolíu, tvisvar sinnum til Indlands að sinna góðgerðarstörfum með börnum, ferðir til Hvíta Rússlands, Finnlands og Svíþjóðar allt vegna blessuðu kórónunnar sem gaf mér svo mikið eftir allt saman.

Þetta blogg byrjaði alfarið þegar ferðalag mitt hófst árið 2010 svo að vinir og vandamenn gætu fylgst með mér úti í heimi. Eftir heimkomu voru fyrirspurnirnar svo margar að ég ákvað að halda áfram. Núna í dag hef ég hætt og byrjað, hætt og byrjað. Ástæðan er sú að áhuginn minn fyrir skrifunum er til staðar en á sama tíma er ég oft að efast um sjálfa mig í þessum heimi. Ég á góðar vinkonur á norðurlöndunum þar sem ekkert er sjálfsagðra en að halda uppi bloggsíðu, það er í raun algengara en að eiga Facebook á sumum stöðum. Við Íslendingar erum fáir og seinni að meðtaka margt. Ég er glöð að sjá hversu ört bloggheimurinn fer stækkandi hér á Íslandi því þá lætur það mér líða betur með mína síðu - En hvað er eðlilegt við það? Þurfum við alltaf að vera eins? Má enginn gera neitt öðruvísi en hinir því þá er hann bara hallærislegur og niðurlægður? 


Mér finnst verst þegar stórir fjölmiðlar eru farnir að skipta sér af hlutunum og rakka niður manneskjur. Ég hef reynt að sýna allri neikvæðri gagnrýni í garð síðunnar minnar jákvæð viðbrögð. Ég hef húmor fyrir sjálfri mér, vitiði til! Og finnst mér nauðsynlegt að geta haft húmor fyrir sjálfum sér ef þú ætlar upp á annað borð að vera í þessum bransa. En nóg er nóg og stundum fara hlutirnir skrefinu of langt. 

Ítrekað var gert grín af blogginu mínu í útvarpsþættinum Harmageddon, ég þekki aðeins til þáttastjórnendanna og finnst þeir frábærir karakterar. Þetta byrjaði allt saman mjög fyndið en á endanum var mér farið að sárna yfir hversu neikvæð áhrif þetta hafði á það sem ég var að gera. Ég hafði húmor fyrir þessu og hló í fyrstu. En þegar ítrekað var verið að stoppa mig á förnum vegi til að hlægja framan í andlitið á mér yfir þessu fannst mér þetta nóg komið. Þetta gerði það að verkum að á endanum tók ég mér pásu frá þessari síðu. Ég hugsaði áður en ég birti hverja færslu "hversu asnalega ætli þessi færsla hljómi með kvennmannsröddu í útvarpinu?" Svo á endanum hugsaði ég alltaf "nei Fanney, fyrst þú ert að þessu verðuru bara að taka þessu og hlægja!" Hvað er eðlilegt við það?

Komment á borð við: "Fanney fer þetta dress ekki örugglega á bloggið?" (lesist hlæjandi!) og þegar verið er að gera grín af gjafaleikjum og í raun bara öllu sem íslenskir bloggarar voga sér að setja inn á sínar síður. Það er engin/n sem að segir þér að skoða þessi blogg - þú kýst það sjálf/ur að smella á linkinn og skoða. Það er enginn að biðja þann aðila sem ekki hefur áhuga á að skoða síðuna, að skoða hana. Þeir sem hafa áhuga fylgjast með, þeir sem ekki hafa áhuga hreinlega sleppa því!
Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að ég sé með hátt í 50.000 heimsóknir á mánuði, stundum meira. Það hlýtur að segja mér að það sé fólk þarna úti sem hefur gagn og gaman af því að skoða og fylgjast með því sem ég er að gera. Færslur fara mikið í það að svara fyrirspurnum sem ég fæ í pósthólfið en til þess er líka leikurinn gerður. Mér finnst skemmtilegast að geta mögulega hjálpað öðrum við hitt og þetta ásamt því að deila með ykkur því sem ég hef áhuga á. Það er ástæða fyrir því af hverju blogg eru orðin svona vinsæl til auglýsinga, það er einungis vegna þess að svo margir skoða þau - en á sama tíma gerir fólk grín og viðurkennir auðvitað EKKI að þau fylgist með íslenskum bloggum.


Svo langar mig að tala um útlitsdýrkunina sem er vissulega til staðar. Við verðum að passa okkur á því að mistúlka ekki útlitsdýrkun. Ég hef lesið pistla sem snúast um hversu asnalegt það er þegar fólk skrifar um hollt mataræði og að þessir pistlar snúist bara um það að missa sem flest kíló. Það er svo alls ekki þannig! Síðan hvenær var það útlitsdýrkun að lifa heilbrigðum lífsstíl og vera ánægður með sjálfan sig? Það er ekkert að því (að mínu mati), að deila með fólkinu í kringum sig hollu mataræði og t.d. hvaða æfingar þeir gera í ræktinni. Það er bara frí auglýsing fyrir fólk sem t.d. er að koma sér af stað og vill ekki borga fyrir einkaþjálfara. Þetta er það sem mótiverar fólk til að koma sér af stað á ný. Hreyfingaleysi er eitt það óhollasta sem þú getur boðið líkamanum þínum upp á. Persónulega finnst mér mjög sniðugt þegar fólk sem lifir heilbrigðum lífsstíl (þá á ég auðvitað ekki við öfgakenndum, heldur heilbrigðum) deilir á veraldarvefnum mismunandi dæmum um hollar máltíðir og millimál sem gefa fólki hugmyndir. Hvaða æfingar er sniðugast að gera í ræktinni. Það snýst ekki endilega um að grennast sem mest heldur að lifa heilbrigðum lífsstíl og líða vel! Þetta hefur alltaf verið til staðar og af hverju er það núna kallað útlitsdýrkun?

Sjálf var ég á stað þar sem ég borðaði ekkert nema skyndibitafæði, hreyfði mig ekkert og svaf endalaust. Ég var með höfuðverk alla daga sem minnti mig helst á þynnku sökum orkuleysis. Ég greindist með vott af depurð (með öðrum orðum, vott af þunglyndi), þvílíkan D-vítamín skort og í raun skort á öllum vítamínum og fyrstu viðbrögð lækna voru að setja mig á þunglyndislyf. Það er enginn sem segir mér að slíkur lífstíll sé hollur fyrir líkama og sál. Um leið og ég tók til í mataræðinu og fór að mæta í ræktina á hverjum degi leið mér loksins betur. Ég fékk innblástur og mótiveringu frá fólki sem var duglegt og agað á þessum sviðum. Ég fékk hugmyndir af hollum mat, góðum æfingum í ræktinni og fleira. Aldrei á ævinni hefur mér liðið betur en akkúrat þegar ég er stödd þarna. Á fullu að hreyfa mig, borða hollari mat og minna af skyndibita. Ég borðaði fæðu sem innihélt nauðsynlegt magn af daglegum næringarefnum fyrir líkamann. Það var ekkert mál að vakna á morgnana, var með nóg af orku til að þrauka daginn og leið miklu betur líkamlega og fyrir vikið, andlega líka. Það er enginn sem segir mér að þetta sé útlitsdýrkun. 
Þó svo að útlitsdýrkun sé framarlega í orðaforðanum um þessar mundir þarf ekki að tengja það við lífsstílsblogg sem hjálpa öðru fólki að komast á betri stað. 


Svo þegar ég hafði náð að hífa sjálfa mig á miklu hærri stall með þessum hætti hvað varðar vellíðan, var eitt af því sem ég fékk að heyra að ég væri pottþétt á Klemma. Ég þurfti að kanna málið betur til að komast að því hvað Klemma í raun væri - en það er víst ólöglegt, stórhættulegt hestalyf sem lætur þig grennast fyrr. Manneskja eins og ég sem þori ekki að reykja sígarettu... Eitthvað sem var mjög gaman að heyra þegar ég hafði unnið hörðum höndum að því að komast á þennan stað og ég viðurkenni að ég verð mjög reið þegar ég heyri svona. Ég trúi bara ekki að fólk hafi það í sér að koma af stað svona sögum, að ég sé í raun á dópi finnst mér ganga skrefinu of langt og er það ástæðan fyrir mikilli reiði sem braust innra með mér strax í kjölfarið. Ekki að það komi fólki úti í bæ neitt við hvernig fólk gerir hitt eða þetta, en þetta finnst mér gott dæmi um hversu auðvelt er að rakka niður í stað þess að hrósa... Það að finna allar óheilbrigðar leiðir og koma orðinu af stað svo allir haldi það pottþétt að þessi Fanney úti í bæ hafi verið að grennast með kolólöglegum hætti og sé þar af leiðandi haldin bullandi útlitsdýrkun. En þetta er eitt af því sem þarf að sætta sig við með því að búa í því samfélagi sem við Íslendingar búum við í dag, sorglegt en satt. 
EN það skiptir mig ekki máli hvað fólk úti í bæ heldur, það sem skiptir mig öllu máli er hvernig mér líður með sjálfa mig og mitt nánasta fólk - og þannig ætti öllum að líða! 

Ég ætla að enda þetta á orðum sem að mér finnst eiga vel við! Hættum allri þessari öfundsýki og gleðjumst og hrósum hvort öðru frekar. Góð leið að góðu lífi. 

Þið afsakið orðagubbið í þessari færslu, margt sem hefur legið mér á hjarta sem mig langaði að koma á framfæri. Ég vil líka minna á að mín orð eru alls ekki heilög og sitt sýnist hverjum í einu og öllu!


Hafið það sem allra best.
Fanney 

Sunday, October 26, 2014

Mood Make Up School

Ég sat fyrir hjá Sigríði Arnfjörð vinkonu minni í fashion-lokaprófinu hennar í Mood Make Up School um daginn. Frá því ég kynntist Sigríði hefur hún alltaf haft mikinn áhuga á förðun og öllu sem því tengist. Hún hefur alltaf verið ótrúlega flink í því að farða sjálfa sig og aðra svo loksins lét hún verða af því að skella sér í námið. 

Útskriftin var í gærkvöldi og fengu nemendur myndirnar af lokaprófum sínum í hendurnar. Myndirnar fyrir Mood Make Up School tekur enginn annar en Helgi Omarsson, sá mikli snillingur. Hann nær einhvernveginn alltaf að kreista það besta fram í fólki hvort sem það er vant fyrir framan myndavélarnar eða ekki. 

Lokaprófsmynd Sigríðar í fashion.
Yndislega og fallega Elín Lovísa sat svo fyrir hjá Sigríði í Beauty lokaprófinu hennar. 
Gullfalleg ekki satt!
Nokkrar myndir sem við tókum á prófdaginn.

Ég mæli eindregið með þessari flinku vinkonu minni. Hún nær einfaldlega alltaf að gera mann sætan og fínan á fagmannlegan hátt. Ef ykkur vantar förðun fyrir eitthvað fallegt tilefni ekki hika við að hafa samband við hana í Facebook skilaboðum, finnið hana HÉR.


x Fanney

Thursday, October 23, 2014

Dress

Dresspóstur í speglamyndum í boði herra Gaultier:


Sloppur - JP Gaultier fyrir Lindex
Samfella - JP Gaultier fyrir Lindex
Gallabuxur - American Apparel 
Skór - Vagabond / Kaupfélagið

Fallegur sloppur sem einnig verður notaður svona - í notalegheitum heima! 

Næstu 7 - 10 dagana mun ég væntanlega koma til með að nota sloppinn mikið einmitt í þeim tilgangi - með verkjalyf í annarri og frostpinna í hinni. Ég þarf nefnilega að láta kippa úr mér hálskirtlunum og farið verður í það mission strax í fyrramálið. Jibbí!

Góða helgi öll sömul, 
x Fanney

Skyrta

Ég klæddist skyrtu í færslu sem ég birti hér á síðunni fyrir ekki svo löngu, (finnið hana HÉR). Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um skyrtuna en sú hin sama er úr herradeildinni í H&M og fékk að fljóta með í stuttu stoppi á Kastrup flugvelli í Köben núna í september. Skyrtan er í XXL og var á aðeins 100kr DKK. 

Skyrta: H&M

Fanney

Wednesday, October 22, 2014

OPI Matte

Í sumar var mér bent á auðvelda leið sem gefur nöglum matta áferð. Frá merkinu OPI er til lakk sem heitir Matte Top Coat, það er glært að lit svo auðvelt er að setja það yfir hvaða lit á nöglum sem er. Lakkið er enga stund að þorna og útkoman verður mött og falleg. Ég var ekki lengi að grípa lakkið þegar ég sá það í Hagkaup í sumar, það er greinilega vinsælt þar sem það virðist ekki alltaf til í rekkanum. Mér finnst matt þó ekki fara vel ofan á hvaða lit sem er, ég set það oftast yfir svart eða aðra dökka liti.

Búin að naglalakka mig með svörtu lakki.
Hér er svo OPI lakkið komið yfir, mött og flott áferð. Mjög auðvelt!

Ég vil svo auðvitað minna ykkur á að þrífa neglurnar alltaf vel áður en þið naglalakkið ykkur. Ef neglurnar eru fitugar eða skítugar fellur lakkið mun fyrr af. Hreinar neglur halda því betur í lakkið.

Fanney

Tuesday, October 21, 2014

L'anza Ultimate Treatment

Eftir þátttöku mína í Ungfrú Ísland árið 2010 fékk ég fría þjónustu í eitt ár á hárgreiðslustofunni Team Hárstudio í verðlaun. Þar kynntist ég L'anza vörunum fyrst en á stofunni eru aðeins notaðar hárvörur frá L'anza. Þar sem ég lita ekki á mér hárið gat ég ekki nýtt mér þá þjónustu (sem hefði annars vissulega sparað mér mikinn pening), en var þess í stað dugleg að mæta til þeirra í djúpnæringar og viðeigandi trít. Ég prófaði þá nokkrar tegundir af djúpnæringum og labbaði alltaf út með endurnært hárið. Eftir þetta ár var ég alls ekki jafn dugleg að viðhalda hárinu mínu. Í dag er það liðin tíð enda gríðarlega mikilvægt að næra hárið sitt vel, bæði litað og ólitað hár. Mína hárþvottarútinu getið þið lesið betur HÉR.

Föstudaginn 10. október síðastliðinn fór ég upp í Team Hárstudio í sérstaka næringarmeðferð, svipaða þessum sem ég hafði áður verið dugleg að nýta mér. Þetta var einföld þriggja þrepa meðferð sem auðveldlega er hægt að sérsníða að þörfum, hárgerð og ástandi hárs hvers og eins. Margir trúa því ekki að sjáanlegur munur geti litið dagsins ljós eftir aðeins eitt skipti en það var sannarlega raunin. Ég kom inn á stofu með skítugt hár en labbaði út með silkimjúkt, hreint, næringarríkt og glansandi hárið.  


Fyrir og eftir.
Munurinn sést örlítið á mynd en var töluvert augljósari í sjón. Ég tala nú ekki um 
mýktina, ilminn og næringuna í hárinu sem auðvitað er ekki hægt að ná á mynd. 


Ultimate Treatment.
Hér er næringarmeðferðin sem var sett í mig í skrefum og langar 
mig að segja ykkur frá hverju skrefi fyrir sig. 

Skref 1 - Chelating Shampoo:
  • Hreinsir sem á áhrifaríkan hátt fjarlægir leifar af hárvörum og steinefnum sem gætu hafa hlaðist upp í hárinu og þyngt það sem og haft áhrif á kemíska meðferð. Óhætt að nota á litað hár. Súlfat frí blanda og einungis náttúrulegar jurtasýrur.
Skref 2 - Deep Treatment:
  • Djúpnæring sem byggir hárið aftur upp af nauðsynlegri blöndu af próteini, raka og steinefnum. Með þessari djúpnæringu á að velja það efni sen hentar hárgerðinni og ástandi hársins úr skrefi 2A.
Skref 2A - Power Boosters:
  • Samanstendur af þremur Power Boosters sem gerir okkur kleift að aðlaga meðferðina að hárgerð og ástandi hárs hvers og eins. 1) Strength Power Booster 2) Moisture Power Booster 3) Volume Power Booster.
Skref 3 - Power Protector:
  • Þetta er loka þrepið sem bindur næringarefnin, kemur jafnvægi á pH gildi hársins og ver gegn skemmdum af völdum hita, mengunar, núnings og UVB og UVC geislum.

Daginn eftir meðferðina, 11. október, hélt ég svo upp á afmælið mitt. Ég fór í bodyshower þann daginn, semsagt bleytti ekki hárið því ég vildi halda glansinum sem best. Ég krullaði hárið með krullujárninu mínu frá HH Simonsen. Það ætlaði að byrja hálf brösulega hjá mér þar sem hárið virtist ekki taka jafn vel í járnið og áður vegna hversu mjúkt það var. En með smá þolinmæði og nóg af hárspreyi var ég ánægðari en nokkru sinni fyrr með útkomuna. Lokkarnir voru náttúrulegri og ekki jafn prinsessulegir, en hárið hélt glansinum og mýktinni. Hérna eru þrjár myndir frá kvöldinu þar sem hárið sést vel en ég var einstaklega ánægð með hárið mitt þetta kvöldið.


Ég mæli eindregið með því að skella sér af og til á stofu í slíkar meðferðir. Endurnæring á hári og ég tala nú ekki um höfuðnuddið og þægindin sem fylgja þessum meðferðum. Í vetur þegar kólnar enn frekar verður hárið þurrara og því er enn frekari þörf á að tríta sig örlítið.

Fanney